Þriðjudaginn 10. júlí næstkomandi verður myndlistarsýningin “Heim að sumri” opnuð kl. 16.00 í listaskálanum að Brúnum í Eyjafjarðarsveit. Á sýningunni verða verk þriggja systkina, Kristínar, Kristjáns og Eysteins frá Munkaþverá. Verkin eru frá löngu tímabili og eru af ýmsum toga, svo sem teikningar, grafík, vatnslitamyndir og þrívíð verk. Systkinin ólust öll upp á Munkaþverá fram á fullorðinsár þar sem foreldrar þeirra, Jón M. Júlíusson og Solveig Kristjánsdóttir, bjuggu á hluta jarðarinnar um langt skeið. Á sýningunni verður einnig sýnd stutt kvikmynd í lit sem nefnist “Kóngur í ríki sínu” og er hún um elsta bróðurinn í systkinahópnum, Einar Jónsson. Myndina gerði Valdimar Leifsson kvikmyndagerðarmaður 1999. Þá verður einnig sýnd stutt svarthvít kvikmynd sem Þrándur Thoroddsen kvikmyndargerðarmaður tók í Munkaþverárrétt haustið 1956. Hjónin Einar Gíslason og Hugrún Hjörleifsdóttir eiga og reka listaskálann á Brúnum sem er aðeins í 14 kílómetra fjarlægð frá Akureyri. Veitingar á staðnum og allir velkomnir.

Sýningin verður opin til 8.ágúst en þá opnar ný sýning sem auglýst verður síðar.