Nú er rúmlega vika í opnun á sýningunni hennar Helgu Sigríðar eða 12. júní.

Við hlökkum mikið til að fá að sýna myndirnar hennar og hvetjum alla til að koma, sjá og fá sér kaffisopa í listaskálanum á Brúnum.

Rætur

Djúpt í rótum okkar býr Auður.

Minning um innri styrk konunnar, glóð, flæði, frjósemi, innsæi, visku, forvitni, ást, dans, söng, gleði, ástaratlot, haga dverga í steini, gullið men og gullinn mjöð. Minning um áföll, reiði, stolt, harm, baráttuþrek.

Þar býr minning um háan baðm, ausinn hvíta auri; um döggvar sem í dali falla og um þrjár ámáttkar meyjar úr Jötunheimum. Urði, Verðandi og Skuld. „Þær lög lögðu, þær líf kusu, alda börnum, örlög seggja.“ Þar býr minning um vísindakonu, völvu sem var fagnað á hverjum bæ með sitt raddlið. Minning um virðingu, lotningu jafnvel, gagnvart visku hennar og styrk. Þar býr mörg þúsund ára minning um hina mótsagnakenndu Miklugyðju, heildina og jafnvægið, tengsl og ást, frið og frjósemi, sköpun og eyðingu, ljós og myrkur.

Í rótunum býr einnig minning um brotinn hrygg Brákar. Karl kastar bjargi á bak vitrar og ástríkrar fóstru. Minning um kinnhest og hárlokk sem ekki fékkst í bogastreng. Minning um svik sem kölluðu á hefndir. Þar býr minning um fyrsta stríðið, gyðjuna Gullveigu „geirum studda, þrisvar brennda og þrisvar borna“; um grát Gunnlaðar, tár Freyju, sorg Friggjar; um átök, kúgun og svívirtar þöglar ambáttir.

Í rótunum býr Gyðjan, Freyja, drottning seiðsins, blótgyðja, ástaguð, dauðagyðja, valkyrja og völva. Hún með þúsund nöfnin og enn fleiri andlitin. Hún er Vanadís, Mardöll, Gefn, Hörn, Göndul, Skjálf, Gullveig, Heiður. Hún er Ísis og Hathor, Inanna og Ereshkigal, Bast og Sekmet, Kýbele og Artemis, Bríet, Morrigan og Macha, Díana, Hera, Gaia, Rhea, Aþena og Artemis, Astarte og Afródíta. Urður, Verðandi og Skuld.

Í rótunum býr Auður, kvenorkan .. örlögin, auðnan, auðnin, spuninn, vefurinn, dauðinn, nornin.

Í skapandi flæði listakonunnar, í djúpum tengslum við ræturnar, sameinast hún karlorkunni í jafnvægi og tekur á sig myndir sem segja meira en öll þessi orð. Myndir sem eru blóð lífs og dauða, tár gleði og sorgar, flæðandi laufblöð, fræ  og greinar baðmsins háa, sem teygja sig inn í framtíð, þar sem auðurinn, viskan og ástin nærast og næra í helgum ástaratlotum. Og hið logandi gullna men er Hennar á ný.

Valgerður H. Bjarnadóttir